8.5.2007 | 07:04
Blindflug.
Samkvæmt nýjustu könnun heldur ríkisstjórnin velli. Það er slæmt. Þá fáum við svona 3-4 ný álver. Og nú er í spilunum að Alcoa yfirtaki Alcan. Það er yfirlýst langtímamarkmið íhaldsins að selja Landsvirkjun. Í örvæntingu sinni segjast forustumenn framsóknar ekki vilja einkavæða þetta fyrirtæki. En sporin hræða. Slóð Halldórs Ásgrímssonar er auðrakin. Nú eiga aðeins nokkrir útvaldir fiskinn í sjónum. Bankarinir og síminn eru líka í höndum útvalinna. Og svo botnar Jón Sigurðsson ekkert í vanþakklæti þjóðarinnar. Hann verður líklega eini formaður framsóknarflokksins sem aldrei verður þingmaður. Afrek út af fyrir sig. Langbest væri að hann yrði einnig síðasti formaður flokksins. Flokksins, sem einu sinni hafði hugsjónir. En nú eru bara valdasýkin og spillingin eftir. Ég held að rétt væri að semja grafskriftina á leiðið.
Kosningarnar á laugardaginn munu verða afdrifaríkar. Við erum í blindflugi þessa 5 daga. Við ættum að staldra við og hugsa okkur vel um. Við getum lent heilu og höldnu. Það er líka hætta á brotlendingu. Orkuverð í heiminum er orðið hátt og mun halda áfram að hækka. Við munum ekki hafa hærri vexti af nokkru öðru en að fresta öllum frekari virkjunaráformum í bili. Óbeislaða orkan hleypur ekki frá okkur. Fyrir náttúruverndarsinna er valið auðvelt. Þar er einungis á einn flokk að treysta. Íslandshreyfingin er andvana fædd. Mér finnst, eins og mörgum, vænt um Ómar Ragnarsson. Enginn efast um fölskvalausa ást hans á landinu.En meðreiðarsveinar og meyjar eru nú ekki sérlega trúverðug. Stuðningur við þessa hreyfingu verður einungis til að hjálpa núverandi stjórnarherrum og frúm. Það eru margir virkjunarsinnar í SF. Fólk kannast nú við Einar Má og Kristján Möller. Formaður SF ber líka fulla ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun þó nú sé flaggað nýjum fána. Ég ætla að vona að allir sem vilja stöðva hryðjuverk gegn náttúru landsins láti ekki villa sér sýn. Þá færist birta yfir landið á ný.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.