16.5.2007 | 06:58
Samanburðarfræði.
Í nýafstöðnum kosningum fengu tveir frambjóðendur útstrikanir sem væntanlega verða til þess að þeir færast til um sæti.Þ.e.a.s. niður á við. Fólk hefur verið að setja samasemmerki milli Björns Bjarnasonar og Árna Johnsens. Sem er auðvitað gjörsamlega fráleitt og út í hött. Ég er að flestu leyti ósammála Birni Bjarnasyni í pólitíkinni. Hann er þó heiðursmaður samt sem áður. Það get ég ekki sagt um Árna. Dæmdur maður með " uppreista" æru. Það er með ólíkindum að þessi maður skuli vera orðinn þingmaður á ný. Í raun voru brot hans miklu alvarlegri en mannsins sem stal einu kjötlæri í verslun og var sendur í fangelsi. Árni framdi brot sín í skjóli trúnaðar sem kjósendur hans og Alþingi fólu honum. Og mér finnst nú ekki mikið fara fyrir iðrun hans. Bara tæknileg mistök að láta standa sig að verki. Hann vandaði þeim heldur ekki kveðjurnar sem komu í veg fyrir að hann fengi að halda áfram nágauli sínu á einni þjóðhátíðinni. Það er auðveldara að fyrirgefa fólki sem sér eftir því sem það hefur gert. Öll erum við mannleg inn við beinið og gerum mistök. Ef Árni Johnsen sæi að sér og segði strax af sér þingmennsku, iðraðist gerða sinna og hagaði sér eins og viti borinn maður myndu margir fyrirgefa honum. En því miður er það líklega borin von af alkunnum ástæðum.
Ég vorkenni Jóhannesi í Bónus ekkert. Hann var ákærður og sýknaður. Áskorun hans til kjósenda um að strika nafn Björns Bjarnasonar út af D lista var yfirmáta smekklaus og ekki síður heimskuleg. Og dæmigert að kaupa milljóna auglýsingar í þessum tilgangi. M.a. átti fólk að strika yfir Björn fyrir það sem hann hefði ekki gert en ætlaði örugglega að gera. Hvað sem fólki finnst um pólitískar skoðanir Björns Bjarnasonar er það ljóst að hann er heiðarlegur stjórnmálamaður.Og harðduglegur að auki. Það er meira en hægt er að segja um suma þingmenn okkar.
Athugasemdir
Til hamingju með þessa síðu þína líka, nafni.
Sammála því að mestu leyti að svona neikvæðar auglýsingar auðmanna eru fremur lítt geðfelldar. Ekki mikið geðfelldari eru samt hrokafull viðbrögð Björns við lýðræðislegri niðurstöðu útstrikana meðal kjósenda hans eigin flokks.
Siggi (IP-tala skráð) 16.5.2007 kl. 19:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.