Andlát.

Ríkisstjórnin andaðist í gær. Líklega einhverjum harmdauði en ekki undirrituðum. Það skiptir þó miklu hvað við fáum í staðinn. Umhverfissinnar hafa áhyggjur. Saga SF í þeim efnum er öllum ljós. Hún stóð nánast öll með framsókn og íhaldi þegar Kárahnjúkavirkjun var samþykkt. Ef við fáum samstjórn SF og íhaldsins fáum við líka álver á Húsavík, Helguvík, Þorlákshöfn og jafnvel víðar. Lengst af hafði ég mikla trú á ISG. Hún er löngu fyrir bí. Traustið hvarf með öllu þegar hún gekk á bak orða sinna fyrir jólin 2002.  " Auðvitað verð ég borgarstjóri áfram. Þetta er engin ögurstund í pólitík" Dómgreindarskorturinn kom þá berlega í ljós. Það var ágætt útaf fyrir sig. Ég óttast að samstjórn þessara flokka kalli það versta fram í þeim báðum. Hættan á frekari einkavæðingu verður áfram til staðar. Össur hefur t.d. lýst áhuga sínum á að markaðsvæða heilbrigðiðskerfið. Þá má enginn fátækur íslendingur veikjast. Og það verður fróðlegt að sjá hvort Ingibjörg Sórún muni krefjast þess að við verðum tekin af lista hinna morðóðu þjóða. Einhverjum ógeðfelldasta smánarbletti í sögu íslenskra utanríkismála. Og er þá langt til jafnað. Og það er líka þýðingarlaust fyrir hana að kenna VG um að hafa komið í veg fyrir vinstri stjórn.Hvaða vinstri stjórn var í spilunum? Sjá menn ekki hvernig komið er fyrir framsóknarflokknum? Kominn langt hægra megin við íhaldið. Er Halldór öllum gleymdur? Kvótinn, Búnaðarbankinn, VÍS, síminn og fleira smálegt. Því miður þorði Guðni varaformaður ekki í formannsslaginn. Líklega hefur ráðherrastóllinn verið of þægilegur. Stundum þarf þó að gera málin upp. Láta slag standa og stinga á graftarkýlum. Hefja löngu horfnar hugsjónir flokksins á loft að nýju. Kveða niður spillinguna sem er að ganga að flokknum dauðum. Þá er möguleiki á að við fáum aftur vinstri velferðarstjórn.

Það virðist augljóst að Jón Sigurðsson segi af sér sem formaður. Hann á ekki annara kosta völ. Hroðaleg útreið flokksins í kosningunum er þó alls ekki honum einum að kenna. Arfur Halldórs fylgdi þessum ágæta manni og uppskeran í samræmi við það. Umhverissinnarnir í flokknum yfirgáfu hann unnvörpum. Eina von flokksins er að breyta um stefnu. Þvo af sér spillingarstimpilinn og vinna traust kjósenda á ný.

Kannski voru úrslit kosninganna á þann veg að allir kostir voru slæmir. Við verðum að bíða og sjá hvað verða vill. Hver sem ríkisstjórnin verður mun ég styðja hana til góðra verka. Og áskil mér um leið rétt til að berjast gegn henni í hinu gagnstæða.  Stöndum vörð um náttúruna, Landsvirkjun og annað sem ekki er búið að gefa eða selja fyrir spottprís á undanförnum 12 árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband