12.6.2007 | 07:21
Enn af íbúðalánasjóði.
Snjall maður frá alþjóðagjaldeyrissjóðnum var hér á ferðinni. Hann hafði ráð undir rifi hverju í efnahagsmálum okkar. Það má ekki hækka laun ríkisstarfsmanna. Fá bara erlent vinnuafl til að halda kjörunum í skefjum. Og það þarf að endurskoða starfsemi íbúðalánasjóðs. Hvernig má það vera að íbúðalánasjóður sé sífellt gerður að blóraböggli varðandi verðbólgu og stjórn efnahagsmála? Þegar lánshlutfallið var hækkað í 90% gengu sumir forsvarsmenn bankanna af göflunum. Töldu þetta brjálæði og það yrði kollsigling í efnahagsmálum. Nákvæmlega sömu menn hækkuðu lánshlutfall bankanna uppí 100% skömmu síðar. Allir sem einn. Þeir héldu reyndar áfram að mismuna fólki eftir búsetu eins og þeir gera enn. Miklu fleiri íslendingar eiga nú sínar íbúðir vegna þess að íbúðalánasjóður fer ekki í manngreinarálit eins og bankarnir. Miðað við umfang íslensks efnahagslífs eru umsvif Íls bara smámunir. Það er sértrúarsöfnuður ákveðinna frjálshyggjupostula sem vill koma þessari stofnun fyrir kattarnef. Talsmenn samkeppninnar sem svo þola hana ekki sjálfir. Ég ætla að vona að Jóhanna standi vaktina svikalaust. Engin ástæða til að ætla annað reyndar. Það verður haldið áfram að djöflast á Íls. Haldið áfram að gera þetta þjóðfélag að einkaeign peningamanna. Gera okkur þetta venjulega fólk að leiguliðum hinnar nýju stéttar. Lénsherranna á einkaþotunum. Fyrst íbúðalánasjóður. Síðan Landsvirkjun. Og yfirleitt allt annað sem eftir á að gefa eða selja hinni nýju stétt fyrir smáaura. Stofnum varnarher og berjumst gegn þessari stefnu. Og ekki seinna en strax.
Athugasemdir
Já, sömu áhyggjurnar kvelja okkur og það þarf núna að fylgjast vel með hverju skrefi og halda Samfylkingunni við efnið.
María Kristjánsdóttir, 12.6.2007 kl. 08:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.