Ljósið slokknaði.

Ég sagði í pistli hér um daginn að Jóhanna Sigurðardóttir væri ljósið í myrkri nýju ríkisstjórnarinnar. Líklega hafði ég rangt fyrir mér. Ráðherrann lækkaði lánshlutfall Íls niður í 80% í gær. Með íhaldsrökunum um að sjóðurinn væri að setja efnahagslífið á hliðina. Verðbólguvaldurinn mikli. Ég sagði líka í pistlinum að umsvif Íls væru smámunir einir í efnahagslífinu hér og stend við það. Og ég vil undirstrika mikilvægi sjóðsins á fasteignamarkaði. Mikið af ungu fólki hefur tekist að eignast húsnæði vegna tilveru þessarar lánastofnunar. Sérstaklega á landsbyggðinni þar sem öll önnur sund eru nánast lokuð. Við skulum taka dæmi af ungum hjónum sem ætluðu að kaupa sér þokkalega íbúð fyrir 20.000.000 og höfðu safnað sér 2 milljónum. Þau fengu 18 milljónir að láni hjá Íls og fluttu alsæl í eigið húsnæði. Eftir það sem ráðherrann gerði fá þau nú 16 milljónir lánaðar og þá vantar skyndilega 2 milljónir uppá að dæmið geti gengið upp. Ungt barnafólk grípur ekki þessar 2 milljónir upp af götunni. Þau verða áfram á leigumarkaðnum. Húsaleiga hér hefur hækkað gífurlega á undanförnum árum. Og leigjendur þekkja flestir öryggisleysið sem fylgir þessum markaði. Hvernig stendur á því að ráðherrann sem svo harðlega gagnrýndi lækkunina á lánshlutfallinu í stjórnarandstöðu gerir nú nákvæmlega það sama? Ég ætla að taka hæfilegt mark á þessum ráðherra framvegis. Bankaveldið vill Íls feigan. Það mun halda áfram að reyna að koma honum fyrir kattarnef. Vonandi tekst það ekki. Ég hefi starfað við sölu á fasteignum í 34 ár og tel mig þekkja þessa hluti þokkalega. Ef Íls verður lagður niður eða gerður hálfóstarfhæfur er það stórt skref afturábak. Við þurfum að sjálfsögðu líka að hugsa um fólk sem ekki getur eða vill eignast húsnæði. En Bjartur í Sumarhúsum blundar nú í okkur flestum. Þessvegna verðum við að stöðva aðförina að íbúðalánasjóði og standa vörð um hann. Bestu sumarkveðjur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband