9.12.2007 | 17:53
Femínismi.
Ég hef nú lengi talið mig jafnréttissinna. Ég átti einu sinni bleika skyrtu en notast nú við rauða þann 19. júní. Flest allir sjá misréttið í launagreiðslum kynjanna. Við vitum öll um ofbeldið sem konur verða fyrir. Kynferðisofbeldi, barsmíðar og annað þaðan af verra. Ég hef mikla samúð með málstað femínista. En stundum finnst mér helstu talsmenn þessa hóps skjóta yfir markið í baráttu sinni fyrir réttlætinu. Mér rann í brjóst í hádeginu og vaknaði nákvæmlega nógu snemma til að fylgjast með lokaumræðunni í Silfri Egils. Þarna voru þær Sóley, Drífa og Katrín Anna. Ötular baráttukonur sem gaman er að hlusta á. En alhæfingar um að kona og karl séu alltaf jafnhæf til allra hluta eru einfaldlega alrangar. Bæði kynin eru sama dýrategundin. Sú grimmasta á jarðríki. Það segir sig sjálft að við erum ekki öll jafnhæf hvort sem við erum karl eða kona. Og það er líka óþarft að kyngera öll störf sem við vinnum. Við erum bara misvel gerð óháð kyni. Við munum aldrei geta breytt því og ekki heldur þeim líffræðilega mun sem á kynjunum er. Við skulum leggjast sameiginlega á árar. Eyða launamisréttinu í eitt skipti fyrir öll. Stöðva ofbeldið með öllum tiltækum ráðum. Mannkynið er einnar ættar. Gens una sumus. Ef við náum þessum markmiðum mun annað sem aflaga fer koma smátt og smátt af sjálfu sér.
Athugasemdir
Sæll Sigurður. Gott að heyra að þú sért hlynntur málstað femínista Vil taka fram að ég var ekki að meina að hvert einasta mannsbarn væri jafnhæft í öllu - en þegar kemur að kynjunum sem heild þá eru konur og karlar jafnhæf. Hitt er svo aftur á móti annað mál að greindir eru margar og breytilegar og styrkleikar fólks liggja á mismunandi sviðum.
Katrín Anna Guðmundsdóttir, 9.12.2007 kl. 18:43
Það var nú ekki ætlun mín að snúa út úr orðum þínum. Ég er ekki heldur í hópi margra kynbræðra minna sem svívirða málstað femínista með öllum tiltækum ráðum. Þ.m.t. brotum á hegningarlögum. Kannski greinir okkur bara aðeins á um baráttuaðferðir. Markmið okkar er það sama. Með bestu kevðjum, Hösmagi.
Sigurður Sveinsson, 9.12.2007 kl. 19:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.