Landlæg plága.

Sonur Davíðs hefur verið skipaður héraðsdómari. Örugglega prýðismaður. Ég þekki hann ekkert en óska honum farsældar í starfi. Hann á ekki að gjalda þess að vera sonur föður síns. En hann á ekki að njóta þess heldur. Við hverju var að búast? Auðvitað engu öðru en þessu. Aldrei var ég í nokkrum vafa um hver yrði skipaður þegar þeir Jón Steinar og Ólafur Börkur sóttu um stöðu hæstaréttardómara. Annar einkavinur og hinn náfrændi núverandi yfirnagara í seðlabankanum. Stöðuveitingar hafa verið hluti af valdakerfinu á Íslandi í meira en heila öld. Valdamenn hafa misnotað vald sitt herfilega öll þessi ár. Þeir reyna að verja gerðir sínar með smásmuguhætti og útúrsnúningum. Svo er fólk líka búið að gleyma svívirðunni áður en varir. Nú er gripið til sömu raka og oft áður. Hæfisnefndin lagði ekki nóg upp úr starfsreynslu sonarins sem aðstoðarmanns dómsmálaráðherra. Það er sammerkt ráðherrum og nánast öllum þingmönnum að telja að starfsreynsla þeirra sem setið hafa á þingi eða komið nálægt ráðuneytum geri þá hæfari til flestra verka en annað fólk. Á þeim forsendum efaðist Steingrímur Sigfússon  ekki um ágæti þess að Davíð var skipaður seðlabankastjóri. Og ekki Ingibjörg Sólrún heldur.  Steingrímur H., Finnur, Tómas, Birgir Ísleifur og allir hinir að sjálfsögðu yfirburðamenn í þessa stöðu. Þetta er bara ömurlegt og sorglegt. Hvenær skyldi koma að því að sá hæfasti verði valinn?  Ekki á meðan þessi þankagangur stjórnmálamanna breytist ekki. Þingmenn og ráðherrar eru bara venjulegt fólk. Verða ekkert merkilegri en við hin við það eitt að sitja á þingi. Svo hafa þeir tryggt sér sérréttindi í lífeyrismálum sem enginn annar þegn á rétt á. Lítið um málþóf þegar sjálftaka allra þingmanna var samþykkt. Við skulum skera upp herör gegn þessari landlægu plágu. Hætta að taka flokksskírteini fram yfir menntun og hæfi. Það væri gott veganesti á nýju ári.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband