Köttur og jarðskjálfti.

Ég vinn í sögufrægu húsi á Selfossi. Sigtúnum, sem Egill Thorarensen byggði af mikilli reisn 1936. Sat þar við tölvuna þegar stóri skjálftinn reið yfir. Ég er nú fæddur hér á staðnum og oft upplifað skjálfta áður, Meira segja sá ég einu sinni jarðskjálfa. Það kom bara malbiksbylgja eftir götunni. Í gær var skjálftinn óvenjulangur. Fyrst hélt ég mér fast í skrifborðið. Þá fóra að rigna möppum yfir mig. Ég sleppti takinu og hljóp út úr húsinu. Ingólfsfjall sást varla fyrir rykkófi. Ég komst heim um kl. hálffimm. Ég bý einn með kettinum mínum og hafði áhyggjur af heimilinu og honum. Og það var ekki fögur sjón sem blasti við mér. Postulín, glös, leirtau og allskonar smáhlutir í méli og maski. En enginn kisi. Hann hafði stokkið fram af svölunum. Ég hófst handa við að moka upp gleri, taka niður þær myndir sem enn héngu á veggjunum. Athugaði síðan bílskúrinn þar sem jeppinn minn var. Smávægilega rispur á honum eftir hluti sem höfðu oltið um koll. Ég leitaði að kisa hér í kring. Árangurslaust. Íbúð okkar er á annari hæð í blokk í Ástjörninni. Svalagangur framan á blokkinni og gluggi hér í tölvuherberginu sem snýr að Ingólfsfjalli. Klukkan sex kom rauður haus í ljós í glugganum. Kisi kominn aftur. Gjörsamlega skjálfandi. Ég var snöggur að loka glugganum. Finna til mat og vatn og tala við þennan góða vin.  Hann var lamaður af skelfingu í allt gærkvöld. Mér tókst að sofna um miðnætti. Köttur undir rúminu. Svo vaknaði ég við ámátleg væl. Kisi við svalagluggann. Hann nánast grét eins og smábarn. Ég tók hann með mér inn aftur. Tókst að sofna á ný. Rumskaði svo við að eitthvað loðið og mjúkt tróð sér á milli hnjánna á mér og kom sér þar fyrir. Ég svaf svo til kl 7 en sá loðni kúrir enn undir sænginni. Ég ætla ekki að trufla hann og sötra mitt indæla kaffi. Þetta verður dagur sem verður minnisstæður. Mest er um vert að slys urðu fremur fá og ekki alvarleg. En það mun verða mikil sala í leirtaui hér á næstunni. Og það verður erfitt fyrir suma að moka upp kærum hlutum sem minningar tengjast við og koma þeim í tunnuna. Við vonum hið besta. Ég sendi öllum sem lentu í  vanda í gær mínar bestu kveðjur. Og ég varð bæði glaður og hrærður þegar ung og falleg kona hringdi dyrabjöllunni um tíuleytið. Hún var úr flugbjörgunarsveitnni á Hellu og við áttum stutt spjall á svalaganginum. Bestu þakkir fyrir það.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Já þetta með köttinn er athyglisvert. Dýr bregðast einmitt svona við atburðum einsog jarðskjálfta, þetta er svipað og þau gera þegar flugeldum er skotið, sem betur fer skila þau sér aftur. Það hljóta að vera mörg dæmin um svona þarna á Suðurlandi núna.

Haraldur Bjarnason, 31.5.2008 kl. 10:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband