Yfirburðafólk?

Það hefur lengi loðað við Alþingismenn að þeir telja sig ákaflega merkilega og mikilvæga. Gnæfa yfir okkur pöpulinn í gáfum og öðrum mannkostum. Verða betur fallnir til annara starfa eftir að setu á þingi lýkur. Þetta á við um þingmenn allra flokka. Steingrímur J. efaðist t.d. ekki um hæfi Davíðs Oddssonar til að verða seðlabankastjóri þó hann skorti alla menntun til þess.Hann hafði verið þingmaður og ráðherra og það var gæðastimpillinn sem tók af allan vafa. Fólk verður sjálfkrafa yfirburðamanneskjur ef það hefur einhverntíma slysast inná þing. Þetta er auðvitað hrein della. Það er líka löngu alkunn staðreynd að valdið spillir. Það sannast á þessari ríkisstjórn eins og öllum öðrum ríkisstjórnum. Með örfáum undantekningum taka menn völd fram yfir flest annað. Sannfæringu sína einnig. Hinn rotni hugsunarháttur er lífseigur. Sitjum meðan sætt er. Þjóðin, ég og þú, berum auðvitað okkar ábyrgð á þessu. Sum okkar sætta sig við að dæmdir þjófar séu kosnir á þing eftir að æra þeirra hefur verið hvítþvegin. Vegna brota sem framin voru í skjóli trúnaðar. Beysið siðferði, eða hitt þó heldur. Fyrrum bankamálaráðherra sem af sýndarmennsku sagði af sér korteri fyrir kosningar var kosinn fyrsti þingmaður okkar sunnlendinga.Því miður eru engar blikur á lofti um breytingar. Núverandi ríkisstjórn sem stærir sig af að vera hrein vinstristjórn og vilji velferð og jöfnuð er ekki hótinu skárri en hinar. Hún raðar vinum sínum á garðann og brýtur stjórnsýslulögin eftir þörfum. Það örlar ekki á siðbót hjá þessari ríkisstjórn. Spillingin og ættartengslin munu ráða ríkjum áfram. Þau voru fögur fyrirheitin um skjaldborgina sem átti að slá utan um heimilin í landinu. Það er ekki hreyft við neinu. Kúlulánþegi er nú bankastjóri eins ríkisbankans og deilir þar og drottnar. Það virðist alveg hulið fólki í þessari ríkisstjórn að stundum þarf að skera á kýlum. Graftarmein spillingarinnar og græðginnar lifir enn góðu lífi. Smitberararnir eru ekki fjarlægðir og stórþjófarnir enn óáreittir við iðju sína. Það örlar ekki á nýrri hugsun hjá valdamönnum þessarar þjóðar. Sami grautur í sömu skál. Búsáhöldin eru þögnuð og við fljótum sofandi að ósi feigðarinnar. Hvenær skyldum við gera tilraun til að snúa blaðinu við?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Yfirfarið og samþykkt.

Árni Gunnarsson, 27.11.2009 kl. 08:50

2 Smámynd: Sigurður Sveinsson

Mér finnst vænt um að heyra þetta frá þér.

Sigurður Sveinsson, 27.11.2009 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband