24.12.2009 | 07:47
Loðvík XIV
Loðvík 14., sólkóngurinn franski, sagði í sínum tíma: Það lafir meðan ég lifi. Steingrímur vill samþykkja icesave þrælaböndin af því við fáum 7 ára "skjól". Við verðum nú samt að byrja að greiða vexti strax. Steingrímur veit vel að hann verður hættur í pólitík að 7 árum liðnum. Jóhanna er nú líka á síðustu snúningunum í pólitíkinni. Ef meinloka þeirra varðandi ríkisábyrgðina á icesave nær fram að ganga á þinginu eru yfirgnæfandi líkur á að þjóðin verði gjaldþrota. Þessi skuld er fyrst og fremst tilkomin vegna einkabanka sjálfstæðisflokksins, Landsbankans. Það er mjög vafasamt þjóðréttarlega að okkur beri sem þjóð að greiða þessa skuld. Á það hafa margir af okkar færustu lögfræðingum bent.En grámyglurnar tvær, Jóhanna og Steingrímur hlusta ekki. Heyra hvorki né sjá og ætla að viðja okkur, börn okkar og barnabörn í þessa þrælafjötra. Og hver er tilgangurinn? " Svo við komumst áfram" Það er stefið sem þetta þokkalega par sífrar stöðugt. Ég veit að ég þarf ekki að biðla til Ögmundar né Lilju Mósesdóttur. Þau munu standa við sannfæringu sína. En ég skora hér með á Atla Gíslason að líta upp úr bókhaldinu, taka þingsæti sitt að nýju og fara að dæmi Lilju og Ögmundar. Ég óska líki Guðfríði Lilju innilega til hamingu með litla drenginn sinn. Hún gæti samt skotist niður á Austurvöll og greitt atkvæði með þessu ágæta fólki sem ég veit að hún er sammála. Þá efast ég ekki um að hinn glæsilegi fulltrúi ungu kynslóðarinnar, Dalamaðurinn Ásmundur Einar Daðason, mun einnig láta sannfæringu sína og samvisku ráða að lokum. Þá verður þetta illræmda frumvarp fellt á Alþingi og við geturm andað léttar. Það væri besta jólagjöf sem hægt er að færa þjóðinni sem býr á ísaköldu landi. Gleðileg jól.
Gjaldeyristekjur duga ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já maður gæti grátið yfir örlögum Íslands. Ég má ekki til þess hugsa að allar tekjur barna okkar verð veðsettar þannig að þau neyðist til að afsala auðlindunum og verða herleidd inn í ESB sem skuldaþrælar. Má ég þá heldur taka á mig tímabundna erfiðleika, jafnvel drekka vatnsþynnta mjólk og leggja mér til munns harða skorpu.
Ég ber virðingu fyrir fólki eins og Lilju og Ögmundi, sem brjótast undan ríkisstjórnaraganum til að taka afstöðu með þjóðinni og tilveru hennar. Ég veit að það er margt sómakært fólk í VG en ég ætla ekki að fella neina dóma hvorki um þingmenn né forseta lýðveldisins. Ég vil ekki ætla neinum að verða viðskila við samviskuna eins og Ögmundur orðaði það. Dag skal að kveldi lofa.
Gleðileg jól!
Sigurður Þórðarson, 24.12.2009 kl. 23:56
Ég þakka þér þessa ágætu og hófsömu athugasemd. Ég tek undir það með þér að nær væri að herða aðeins beltisólarnar strax fremur en að velta byrðunum yfir á komandi kynslóðir. Höldum áfram að láta heyra í okkur í baráttunni fyrir réttlæti. Sendi þér mínar bestu kveðjur nafni minn góður á þessum kyrrláta degi friðarins þegar birtan er byrjuð að vinna á myrkrinu.
Sigurður Sveinsson, 25.12.2009 kl. 08:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.