Stefnumótun.

Nú er rætt um að SF og VG vilji ganga bundin til kosninganna þannig að báðir flokkarnir stefni að samstarfi. Jafnframt verði lögð fram drög að helstu stefnummálum verðandi ríkisstjórnar þeirra fyrir kosningarnar. Ég persónulega tel afar óvarlegt að sækja um aðild að ESB og finnst það alls ekki koma til greina nema spyrja þjóðina fyrst. Frambjóðendur L listans virðast hafa miklar áhyggjur af að þjóðin fái að segja álit sitt. Það er nú öll lýðræðisástin. Hvað er lýðræðislegra er að þjóðin ákveði í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort sótt verði um aðild eða ekki? Það er sú leið sem liggur beinast við að fara. L listinn reynir að blása málið upp til að vekja athygli á framboði sínu. Framboði, sem snýst um framapot örfárra manna og nákvæmlega ekkert annað.
mbl.is L - listi varar við ESB slagsíðu flokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstraust.

Þeir eru samir við sig stjórnmálamennirnir. Fyrir prófkjörin eiga þeir vart orð yfir eigið ágæti og nái þeir stöðu á listanum sem hugsanlega gefur fyrirheit um þingsæti er listinn yfirmáta sigurstranglegur. Ég er nú reyndar sunnlendingur og ræð því engu um úrslitin í norðvesturkjördæmi. En það er huggun harmi gegn að eiga kost á að kjósa dæmdan þjóf á þing. Eða hvað?
mbl.is Flottur listi og sigurstranglegur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott ef satt reynist.

Þetta er afar athyglisvert. Fagnaðarefni. Íhaldið og framsókn hafa löngum haft með sér helmingaskiptareglu. Samstjórn þessara flokka um tólf ára skeið kom hér á mestu misskiptingu gæðanna í allri stjórnmálasögunni. Þeir bera höfuðábyrgð á ástandinu sem nú ríkir á þessu blessaða skeri. Þeir eiga skilið að við refsum þeim rækilega. Við skulum ekki taka mark á blekkingum þeirra og áróðri næstu vikurnar. Kyssum ekki á vöndinn og köstum þrælslundinni á haugana.
mbl.is Flestir vilja stjórn S og V
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mafía.

Enn dregur olíumafían lappirnar. Við eigum inni miklu meiri lækkun. Álagningin hefur líka hækkað í kreppunni. Og hvernig er með smurolíuna. Ég hafði ekki keypt smurolíu í nokkur ár. Keypti einn lítra í vikunni hjá enn einum. Og verðið? 1385 kr. Það væri fróðlegt að fá greiningu á verði sumurolíunnar. Ég er alveg viss um að þetta er hroðalegt okur.
mbl.is Eldsneytisverð lækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrautseigja.

Þegar þessar aðstæður koma upp hugsa ég oft til Vestfirðinga. Líklega sérstök manngerð sem sættir sig við að búa við snjóflóðahættu. Náttúran og fjalladýrðin togar í fólk. Fólkið  býður náttúruöflunum birginn og virðist una glatt. Ég er nokkuð víðförull um þetta fallega land sem við eigum. En Vestfirðirnir hafa orðið útundan að mestu. Hef þó komið á Tálknafjörð, Patreksfjörð og Bíldudal. Nú verð ég að gera bragarbót í sumar. Gerða mér ferð eins langt og vegakerið býður uppá. Ég sendi öllum Vestfirðingum mínar bestu kveðjur. 
mbl.is Rýmingu aflétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing.

Nú eru margir sem tala um nauðsyn stjórnlagaþings. Til höfuðs flokksræðinu. Það skal verða fjölmennt og til þess kosið eftir eftir sérstökum reglum. Ég efast mjög um ágæti þessara hugmynda. Það má reyndar ýmsu breyta í stjórnarskrá okkar. Mörg af verstu einræðisríkjum heims eru með voða flottar stjórnarskrár. Þar eru t.d. almenn mannréttindi varin í bak og fyrir. Þó eru þessi fínu plögg einskis virði. Það er bara ekki farið eftir þeim. Það er líka oft verið að brjóta stjórnarskrána hér hjá okkur. Bretar hafa nánast enga skráða stjórnarskrá. Þar byggjast stjórnlögin á hefðum og venjum og lýðræðið svínvirkar þrátt fyrir þetta. Ég legg til að nokkrum valinkunnum heiðursmönnum verði falin endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég nefni sérstakalega nokkur nöfn: Sigurður Líndal, Eiríkur Tómasson, Björg Thorarensen, Tryggvi Gunnarsson og Páll Hreinsson.  Tveir þeir síðastnefndu eru reyndar við önnur störf í bili. Það má leysa þá frá þeim og láta Evu koma í staðinn. Þetta fólk myndi ljúka þessu verki á nokkrum vikum og við losnuðum við umfangsmikið og afar kostnaðarsamt batterí sem óvíst er að myndi nokkru skila. Þetta er einföld, ódýr og góð lausn.


Skoðanakönnun.

Samkvæmt nýjustu könnun Gallup hafa stjórnarflokkarnir hreinan meirihluta. Það sem er athyglisvert við þessa könnun, en reynt að fela það eins og hægt er, er að fylgi VG frá fólki undir þrítugu er 41%. 25% sama hóps styðja sjálfstæðisflokkinn. Þetta gleður gamalt vinstrihjarta. Sýnir að unga fólkið er skynsamt og vill raunverulegar breytingar. Það er líka þessi hópur sem mest hefur fundið fyrir afleiðingunum af stefnu íhaldsins, sem hér hefur verið allsráðandi alltof lengi.

Óhófleg skattheimta.

Þessi nauðungarskattur er stórfurðulegur. Lengst af varði ég ríkisútvarpið og sjónvarpið reyndar líka. En ég er búinn að fá alveg nóg. Og hvernig má það vera að lögaðili sem hvorki hefur heyrn né sjón skuli neyddur til að greiða þetta gjald? Ég bíð eftir að þessi stofnun rukki köttinn mínn líka.
mbl.is Afnotagjöld RÚV í einni greiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hún skánar lítið.

Véfréttinni frá Bifröst fer ekki mikið fram. Þessi kraftaverkamaður sem handvalinn var sem formaður framsóknarflokksins af draugnum sem flúði land hafði ekki erindi sem erfiði í pólitíkinni. Hann náði ekki einu sinni að verða þingmaður.Þrátt fyrir öll "þjóðlegheitin" Það er miklu faglegri skipun á þessum norðmanni en flestum öðrum, þ.m.t. Véfréttinni sjálfri. Seðlabankinn hefur lengi verið elliheimili fyrir pólitíkusa sem settir hafa verið í úreldingu. Fólk man kannski eftir Finni, Tómasi Árnasyni og Steingrími Hermannssyni. Svo má bæta Birgi Ísleifi við. Ég vona að þessi ósiður verði lagður af og spillingunni sem viðgengist hefur í áratugi verði komið fyrir á ruslahaugunum.
mbl.is „Hvað er faglegt við þetta?"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Suðurlandsvegur.

Ég skil vel að Hvergerðingar vilji byrja einhverstaðar á leiðinni úr Reykjavík til Hveragerðis. Það hefur þó sýnt sig að vegurinn milli Hveragerðis og Selfoss er hættulegasti kafli þessarar leiðar. Við skulum byrja á að tvöfalda hann. Leiðin er aðeins u.þ.b. 13 km. Þó hart sé í ári er gífurlega mikilvægt að hefjast handa hið allra fyrsta.
mbl.is Tvöföldun Suðurlandsvegar er forgangsmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband